Aukasýning á Húsmóðurinni á Akureyri Laugardaginn 10. september.
Allt seldist upp síðustu sýningarhelgi. Þess vegna höfum við bætt við
tveim sýningum í Hofi:
Kl 19.00 – UPPSELT,
Kl 22.00 – ÖRFÁ LAUS SÆTI.
Gleðileikurinn Húsmóðirin eftir Vesturport sem hefur heldur betur slegið í gegn kemur nú til Akureyrar. Aðeins ein sýningarhelgi í Hofi. Hér tekst Vesturport á við gamanleikjaformið þar sem hurðir opnast og lokast á hárréttu augnabliki, persónur birtast á óþægilegu andartaki eða yfirgefa sviðið rétt áður en allt verður óbærilega vandræðalegt. Leikarar skipta um hlutverk á ótrúlega stuttum tíma, einn ryður út úr sér orðaleikjum á meðan annar dettur á bananahýði. Öll trixin í bókinni og auðvitað fullt af óvæntum uppákomum að hætti Vesturports. Litrík og hættuleg sýning þar sem leikið er út á ystu nöf.
„Við erum virkilega spennt fyrir því að koma norður og það verður gaman að nýta möguleikana í Hofi þar sem að sviðið er stórt og við ætlum að skapa skemmtilega nálægð við áhorfendur eins og við gerðum í Borgarleikhúsinu.“ Segir Rakel Garðarsdóttir framkvædarstjóri Vesturports.
Húsmóðirin verður sett upp í Hamraborg, stóra sal Hofs, en áhorfendur munu sitja á sviðinu.
„Við erum stolt af því að fá Vesturport sem er með virtustu leiklistarhópum í heimi í heimsókn til okkar“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdarstjóri Menningarhússins Hofs.
Vesturportshópinn þarf vart að kynna en hann á 10 ára afmæli í ár og í vor hlaut hann Evrópsuku leiklistarverðlaunin sem eru ein virtustu leiklistarverðlaun í heiminum. Hópurinn hefur á þessum tíu árum verið afkastamikill og sett upp margar eftirtektarverðar sýningar og framleitt nokkrar kvikmyndir. Þær sýningar sem mesta athygli hafa hlotið einkennast af sterkum myndum, krafti og gleði, grípandi tónlist og ólgandi tilfinningum. Nú um helgina veitti Vesturport Evrópsku leiklistarverðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn í Alexandrinsky-leikhúsinu í Pétursborg. Þetta er án vafa mesta viðurkenning sem íslenskt leikhús og leikhúslistamenn hafa hlotið fyrr og síðar. Sýningarnar Hamskiptin og Faust voru sýndar ytra í tenglsum við hátíðina fyrir fullu húsi fjölmiðla – og leikhúsfólks og var vel fagnað.
Höfundar og leikararverksins eru þau Björn Hlynur Haraldsson, Gísli Örn Garðarsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Víkingur Kristjánsson og Jóhannes Níels Sigurðsson. Leikmynd og búninga hannar Ilmur Stefánsdóttir og lýsingu annast Þórður Orri Pétursson. Pálmi Sigurhjartarson semur og flytur tónlist og Ólaf Örn Thoroddssen er hljóðmaður sýningarinnar.